Áhersla er áfram á alla færniþætti, tal, hlustun, lestur og ritun. Áframhaldandi nám er í málfræði og uppbyggingu málsins (ný málfræðiatriði eru m.a. ýmis fornöfn, framtíð, þátíðin imparfait og munur hennar og passé composé). Hlustunar- og talæfingar eru á dagskrá eins og áður. Aukin áhersla er á þjálfun mismunandi lestrarlags með lestri margvíslegra texta og orðaforði nemenda og lesskilningur þannig efldur. Nemendur rita texta af ýmsu tagi, m.a. um liðna atburði og framtíðaráform. Sem fyrr eru nemendur fræddir um frönskumælandi þjóðir og menningu þeirra og vinna í því sambandi stutt þemaverkefni sem þeir kynna hver fyrir öðrum. Auknar kröfur eru um sjálfstæð vinnubrögð, m.a. hvað varðar notkun orðabóka og annarra uppflettirita.