Frá upphafi er færniþáttunum fjórum, tali, hlustun, lestri og ritun, sinnt jafnhliða en allra fyrst er sérstök áhersla á framburðarkennslu því að mikilvægt er að nemendur temji sér góðan framburð strax frá byrjun. Nemendur eru æfðir í að tala og skrifa um sjálfa sig, fjölskyldu sína, vini og nánasta umhverfi. Einnig æfast þeir í samskiptum við ákveðnar aðstæður í daglegu lífi. Nemendur rita einfalda texta eins og lýsingu á hlutum, fólki og stöðum, samtöl, frásagnir o.fl. sem byggjast á orðaforða sem áður hefur komið fyrir í kennslunni. Unnið er með einfalda texta, s.s. frásagnir, samtöl og söngtexta. Markviss uppbygging orðaforða og kennsla í grunnatriðum franskrar málfræði fer fram með hliðsjón af markmiðum vetrarins. Frakkland, frönskumælandi þjóðir og menning þeirra eru kynnt samhliða námsefni vetrarins, m.a. með ítarefni á borð við myndefni og tónlist. Nemendur fá grunnþjálfun í notkun orðabóka og upplýsingaleit á Netinu. Lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð.